Vélin maður

Á 17. öld mótaðist nýtt viðhorf til náttúrunnar. Þetta viðhorf er stundum kennt við vélhyggju og einkennist af þeirri skoðun að heimurinn sé eins konar vél og að gangverki þessarar vélar sé hægt að lýsa með stærðfræðilegum aðferðum. Frægustu talsmenn vélhyggju á 17. öld eru líklega Ítalinn Galileó Galileí (1564 - 1642), Frakkinn René Descartes (1596 - 1650) og Englendingurinn Thomas Hobbes (1588 - 1679). Hugmyndir þessara manna og annarra sem hugsuðu líkt og þeir urðu grundvöllur að mestu framförum sem orðið hafa í náttúru- og mannvísindum síðan á gullöld Grikkja á 5. og 4. öld f. Kr.
     Á sínum tíma þótti mörgum sem vélhyggjan gengi þvert gegn heilbrigðri skynsemi. Einkum þótti mönnum vitlaus sú skoðun Descartes að dýr eins og hundar og hestar, apar og ánamaðkar, séu í raun og veru vélar sem lúta algerlega lögmálum eðlis- og efnafræði. Á sínum tíma var þetta líka byltingarkennd hugmynd og það tók líffræðinga meira en 250 ár að sætta sig við hana, því á seinni hluta síðustu aldar töldu margir þeirra enn að lífið væri á einhvern dularfullan hátt hafið yfir þau lögmál sem gilda um dautt efni.
     Nú til dags er kenning Descartes orðin að viðteknum sannindum og allir líffræðingar gera ráð fyrir því að á endanum sé hægt að skýra líkamsstarfsemi og hegðun dýra með tilvísun til þeirra náttúrulögmála sem gilda um dautt efni.
     En þótt Descartes hafi haldið fram vélhyggju um dýrin taldi hann allt annað eiga við um mennina. Hann taldi að dýrin væru algerlega af heimi efnisins en mennirnir hefðu sál sem væri ekki lík neinni vél.
     Descartes gerir víða grein fyrir þessari skoðun sinni, til dæmis í 5. kafla Orðræðu um aðferð1 þar sem hann segir:
Þá er hér var komið gerði ég mér sérstakt far um að leiða í ljós, að væru til vélar, sem hefðu líffæri og ytri gerð apa eða einhverrar annarrar skynlausrar skepnu þá væri mönnum alls ókleift að átta sig á, að þær væru ekki að öllu leyti sama eðlis og þau dýr eru. Væru á hinn bóginn til vélar sem líkar væru mannslíkama og líktu eftir athöfnum manna, eftir því sem hagleikur leyfði, hefðu menn samt alltaf tvö óbrigðul ráð til að átta sig á, að þær væru alls ekki menn.
Descartes heldur því sem sagt fram að ekkert í fari apa bendi til að þeir hafi sál eða séu eitthvað annað og meira en vélar en tvennt sé það í fari manna sem sýni og sanni að þeir séu hafnir yfir lögmál efnisheimsins. Og hvað skyldi þetta tvennt nú vera? Annað er hæfileikinn til að nota mál og hitt er sú fjölhæfni sem einkennir mennina.  Hvort tveggja telur Descartes byggjast á skynsemi sem ekki á rót sína í vélgengum hræringum efnisins.
Því að skynsemin er til allra hluta nytsamleg og dugir hvernig sem á stendur, en líffæri þessi þurfa sérstakrar skipanar við til hverrar einstakrar athafnar. Af þessu leiðir, að í raun er óhugsandi, að nógu mörg ólík líffæri fyrirfinnist í einni vél, til að hún geti í öllum aðstæðum lífsins komið fram á sama hátt og skynsemin lætur menn gera.
     Við skulum staldra aðeins við þessi rök Descartes. Ef mannshugurinn (eða skynsemin) er vél þá geta vélarhlutarnir væntanlega hreyfst til eða breytt stillingum sínum eða innbyrðis afstöðu á nokkuð marga vegu en þó ekki á óteljandi vegu. Fyrir hverja nýja hugsun, hverja nýja setningu eða ný viðbrögð við óvæntum aðstæðum hlýtur að þurfa nýja stillingu, nýja skipan vélarinnar eða nýja afstöðu eins vélarhluta til annarra. En "skynsemin ... dugir hvernig sem á stendur". Hún getur brugðist við á óteljandi vegu og menn geta sagt óteljandi nýjar setningar og hugsað óteljandi mismunandi hugsanir, eða er það ekki? Ef mannshugurinn getur gert óteljandi mismunandi hluti en engin vél getur gert óteljandi mismunandi hluti þá er mannshugurinn ekki vél.
     Eitthvað þessu líkt hefur Descartes líklega verið að hugsa. En hann gekk lengra og hélt því líka fram að allur efnisheimurinn sé vélgengur en mannshugurinn ekki og því sé mannshugurinn ekki partur af efnisheiminum.
     Þessi kenning um aðgreiningu hugar og efnis, eða líkama og sálar, er kölluð tvíhyggja. Descartes færði fleiri rök fyrir henni en tíunduð eru hér.2  Þau rök sannfærðu suma, en ekki alla. Einn þeirra sem ekki lét sannfærast var samtímamaður Descartes, Thomas Hobbes, sem aðhylltist hreinræktaða efnishyggju. Annar heimspekingur sem neitaði að fallast á tvíhyggju Descartes var landi hans La Mettrie sem uppi var öld seinna (1709 - 1751).
     Í bók sinni Vélin maður3 hélt La Mettrie fram svipaðri vélhyggju um manninn og Descartes hafði áður haldið fram um dýrin. En það var ekki nóg með að La Mettrie setti manninn á bekk með dýrum heldur skrifaði hann líka bók um hamingjuna4  þar sem hann dásamar meðal annars þá ánægju sem hafa má af kynlífi. Fyrir vikið varð La Mettrie einhver óvinsælasti heimspekingur allra tíma. En þótt klerkar, siðapostular og rithöfundar hafi keppst við, allan seinni hluta 18. aldar, að úthúða La Mettrie tókst þeim ekki að kveða niður hugmyndina um manninn sem vél þótt ef til vill hafi þeim tekist að draga eitthvað úr ánægju fólks af kynlífi.
     Vélhyggja um manninn gekk aftur í ótal myndum á 19. öld. Margir kannast við eina útgáfu hennar úr sögu Mary Shelley (1797 - 1851) um vísindamanninn Frankenstein. Hann bjó til mann sem bæði gat hugsað og fundið til.
     Á 4. áratug þessarar aldar las Alan Turing (1912 - 1954) söguna um Frankenstein. Um svipað leyti lagði hann grundvöllinn að tölvufræðum og gervigreindarfræðum nútímans og hóf tilraunir til að smíða hugsandi verur. Eftirmenn hans halda þeim tilraunum áfram enn þann dag í dag. Ekki reyna þeir þó að smíða menn af holdi og blóði, eins og Frankenstein gerði, heldur rafknúnar vitsmunaverur úr rökrásum.
     Eftir að Turing hafði sýnt fram á að hægt sé að smíða vélar sem geta unnið eftir hvaða reglu eða formúlu sem hægt er að setja fram af fullri nákvæmni var góð ástæða til að efast um þá kenningu Descartes að engin vél geti unnið óteljandi mismunandi verk. Þetta er einmitt það sem tölva getur. Ekki er þó svo að skilja að nein tölva geti í raun og veru tekið á sig óteljandi stillingar. Sé minni hennar af fastri stærð er aðeins hægt að raða í það forritum og gögnum á endanlega marga mismunandi vegu. En það eru engin föst efri mörk á minnisstærð tölvu svo það er ekki hægt að benda á neina endanlega tölu og segja að tölva geti unnið svona mörg mismunandi verk og ekki fleiri - því skyldi hún ekki geta skrúfað í sig fleiri diska eða raðað í sig nokkrum minniskubbum til viðbótar ef hún þarf á því að halda?
     Í ritgerð sinni "Reikniverk og vitsmunir"5 sem Turing birti árið 1950 tók hann Descartes á orðinu, ef svo má segja. Descartes hafði haldið því fram að hæfileikinn til að tala sýni að menn hafi skynsemi til að bera og séu því eitthvað annað og meira en vélar. Turing hélt því hins vegar fram að takist að smíða vél sem hefur fullt vald á máli og getur talað um alla heima og geima, þá hljótum við að ætla þeirri vél skynsemi og andlega hæfileika eins og menn hafa. Hann trúði því að fyrr eða síðar tækist að búa til forrit sem gæddu tölvur máli og gerðu þeim kleift að tala saman um hugðarefni sín bæði hver við aðra og við fólk. Eftir það gæti ekkert nema fordómar og heimska komið í veg fyrir að menn litu á vélar sem hugsandi verur og hví skyldu þeir þá ekki líta á sjálfa sig sem vélar.
 

1) Á frönsku heitir þessi bók Discours de la méthode. Hún kom fyrst út árið 1637. Íslensk þýðing Magnúsar G. Jónssonar kom út hjá Hinu íslenzka bókmenntafélagi árið 1991.

2) Sjá kaflann um tvíhyggju á bls. 38 - 44.

3) L'Homme Machine. Kom fyrst út árið 1747.

4) Discours sur le bonheur. Kom fyrst út árið 1750.

5) Á fummálinu heitir greinin "Computing Machinery and Intelligence" Hún birtist fyrst í heimspekitímaritinu Mind árið 1950. Íslensk þýðing Atla Harðarsonar birtist í Hug, tímariti Félags áhugamanna um heimspeki, árið 1995.