Veraldarhyggja

Í bókum um heimspekisögu er oft stillt upp andstæðum stefnum: rökhyggju gegn raunhyggju í þekkingarfræðinni; hughyggju gegn efnishyggju í frumspekinni; eða nytjastefnu gegn réttarstefnu í siðfræðinni. Eitt svona andstæðupar sem hefur lengi tekist á er veraldarhyggja og handanhyggja.
     Í hugmyndabaráttu undanfarinna alda hafa ótal fylkingar tekist á og víglínurnar milli þeirra verið á endalausri hreyfingu. Bandalög hafa myndast og sundrast aftur, stundum óvænt og að því er virðist án nokkurs fyrirvara. Því er stundum erfitt að átta sig á um hvað átökin snúast. En eins og saga evrópskrar heimspeki undanfarin fjögur hundruð ár horfir við mér hafa flestar höfuðorrustur verið háðar einhvers staðar nálægt landamærum veraldarhyggjumanna og andstæðinga þeirra sem halda fram handanhyggju í einhverri mynd. Þótt handanhyggjumenn hafi lengst af verið miklu fjölmennari og betur vopnum búnir hefur veraldarhyggjan unnið miklu glæstari sigra og hefur nú lagt undir sig mestan hluta af hugarheimi menntaðra manna.
     Á erlendum málum er veraldarhyggja stundum kölluð "natúralismi". Hún er ekki kenning sem hægt er að setja fram í fáum orðum heldur miklu fremur samfylking ýmissa kenninga sem flestar eiga það sameiginlegt að álíta manninn algerlega af þessum jarðneska heimi og halda því fram að öll tilvera hans verði skilin og skýrð með vísindalegum hætti. Það má líka líta á veraldarhyggju sem viðleitni fremur en kenningu. Hún er viðleitni til þess að beita vísindalegri hugsun á mannlífið.
     Andstæðar skoðanir gera yfirleitt ráð fyrir því að maðurinn tilheyri að einhverju leyti öðrum heimi og einhver hluti mannlífsins sé fyrir utan það svið sem vísindaleg hugsun fær höndlað. Rétt eins og hægt er að líta á veraldarhyggjuna sem viðleitni til að koma manninum fyrir á heimsmynd vísindanna má líta á andstöðuna gegn henni sem viðleitni til þess að halda í og efla trúarleg viðhorf.
     Langfrægasti fulltrúi veraldarhyggju í hópi evrópskra heimspekinga á seinni öldum er Skotinn David Hume (1711 - 1776). Í ritum sínum tætir hann sundur rök þeirra sem þóttust hafa sannað tilveru guðs, frelsi viljans og ódauðleika sálarinnar. Hume var hallur undir efahyggju og taldi sig þess ekki umkominn að neita því með fullri vissu að til sé guð, frjáls vilji og framhaldslíf. En líkt og aðrir þeir sem lengst ganga í veraldarhyggju þóttu honum viðhorf trúmannanna lítt skynsamleg.
     Veraldarhyggja var ekki eins vinsæl á 18. öld og hún er núna og heimspekingar sem hirtu um að kynna sér rök Humes reyndu flestir að hrekja þau eða krækja hjá þeim með einhverju móti. Í þessum hópi er Immanuel Kant (1724 - 1804) einna merkastur. Í sínu frægasta riti, Gagnrýni hreinnar skynsemi1 ræðir hann þrjár meginspurningar frumspekinnar:

  Er guð til?

  Er viljinn frjáls?

  Er sálin ódauðleg?

    Kant reyndi að miðla málum milli Hume og hinna sem vildu halda í trúarleg lífsviðhorf með því að rökstyðja að um þessi efni sé ekki kostur á neinni fræðilegri eða vísindalegri þekkingu. Hér sé komið út fyrir þann eina heim sem vísindin geta rannsakað, sem er reynsluheimur manna og því sé sama hvaða sigra vísindin munu vinna, þau geti aldrei rænt menn voninni um að til sé guð, frjáls vilji og framhaldslíf. Hume hefði ef til vill ekki verið svo mjög andsnúinn þessari kenningu. Hún fellur vel að efahyggjunni. En Kant vildi ganga lengra og segja að þótt trúin á guð, frjálsan vilja og framhaldslíf geti ekki stuðst við nein vísindaleg rök þá sé hún samt skynsamleg því hún styðjist við siðferðileg rök: siðferðið þurfi á trúnni að halda og því sé skynsamlegt að trúa. Ekki hefði Hume þótt þessi kenning merkilegur pappír, enda taldi hann siðferði manna grundvallast á eðlishvöt eða náttúrulegri tilhneigingu til að hafa samúð með náunganum en ekki á langsóttum kenningum um yfirnáttúrulegan veruleika handan við reynsluheiminn.
     Þótt Kant hafi reynt sitt besta til að miðla málum deila heimspekingar enn um tilveru guðs, frjálsan vilja og framhaldslíf. Það er líka tekist á um að hve miklu leyti vísindaleg hugsun dugi til skilnings á mannlífinu. Á síðustu árum hafa veraldarhyggjumenn gert mikið úr því hve margt í fari mannsins megi skýra með tilvísun til þróunarkenningarinnar eða nýjustu rannsókna í lífeðlisfræði og gervigreindarfræðum. Andstæðingar veraldarhyggju hafa hins vegar haldið á lofti rökum fyrir því að meðvitundin sé utan þess sviðs sem skilið verður og skýrt með hlutlægum aðferðum vísindanna. Hér er ekki rúm til að kanna alla víglínuna. Við skulum því láta okkur duga að staldra ofurlítið við meðvitundina.
    Í frægri ritgerð sem heitir "Hvernig er að vera leðurblaka?"2  fjallar bandaríski heimspekingurinn Thomas Nagel um leyndardóma meðvitundarinnar. Hann gerir ráð fyrir að hægt sé að afla hlutlægrar þekkingar um líkamsstarfsemi og heilabú leðurblöku og spyr sig hvort þessi vitneskja dugi til að komast að því hvernig það sé að vera leðurblaka. Hann telur blasa við að svarið sé nei.
    Hafi leðurblakan meðvitund þá hlýtur hún að eiga sinn reynsluheim, sinn huglæga veruleika og upplifa heiminn með einhverjum hætti. Nagel heldur því fram að þennan huglæga veruleika sé ekki hægt að rannsaka, skoða eða skilja með hlutlægum aðferðum vísindanna. Hann sé utan þess heims sem aðrir en leðurblakan sjálf geti þekkt og skoðað.
     Hvort sem Nagel hefur rétt fyrir sér eða ekki neyðast talsmenn veraldarhyggju til að viðurkenna að enn sem komið er veit enginn hvernig hægt er að nálgast þekkingu á huglægum veruleika leðurblökunnar. Líffræðingar vita ekki einu sinni hvort leðurblökur hafa meðvitund.
 Það er hægt að setja svipuð rök fram á ótal vegu. Ein leið er að hugsa sér litblindan vísindamann sem hefur alla æfi séð veröldina svarthvíta. Slíkur maður ætti að geta vitað allt sem hægt er að vita um heila, augu, taugafrumur, rafboð og efnabreytingar. Það er erfitt að ímynda sér neina hlutlæga eða vísindalega þekkingu sem hann getur ekki aflað sér. En það er líka erfitt að ímynda sér að hann geti vitað hvernig það er að sjá liti. Það er erfitt að ímynda sér að hlutlægar eða vísindalegar aðferðir dugi til þekkingar og skilnings á skynjunum, tilfinningum og öðru því sem á sér stað í meðvitundinni.
     Talsmenn veraldarhyggju geta svarað rökum sem þessum með því að minna á að fyrir daga Darwins (1809 - 1882) var allt eins erfitt að ímynda sér hvernig jafnflókinn hlutur og mannslíkami getur orðið til fyrir tilviljanakennt samspil blindra efniskrafta. Þeir gera sér vonir um að einhvern tíma muni vísindin ná tökum á meðvitundinni. Andstæðingar þeirra geta hins vegar bent á að meðvitundin sé ekki sambærileg við náttúrufyrirbæri eins og mannslíkama sem hægt er að skilja, þekkja, rannsaka og skoða utan frá: það sé hún sem skoðar og rannsakar, þekkir og skilur.
     Átökin um meðvitundina eru ef til vill síðasta stórorustan milli veraldarhyggju og handanhyggju sem háð verður með heimspekilegum rökum. Takist að koma meðvitundinni inn á heimsmynd vísindanna verður trúlega fátt um röklegar varnir gegn veraldarhyggjunni. Meðan það tekst ekki geta þeir sem vilja bent á að sá veruleiki sem vísindaleg hugsun nær til sé ekki allur veruleikinn og enginn viti hve mikið stendur út af.
 

1) Á fummálinu heitir þessi bók Kritik der reinen Vernunft. Hún kom fyrst út árið 1781.

2) Á frummálinu heitir þessi ritgerð "What Is It Like to Be a Bat?"og hún birtist upphaflega í 4. hefti 83. tölublaðs tímaritsins Philosophical Review. Síðan hefur hún verið endurprentuð m.a. í ritgerðasafni Nagels Mortal Questions sem kom út hjá Cambridge University Press árið 1979.