Ytri veruleiki

Hugsaðu þér að þú hafir alið allan þinn aldur lokaður inni í litlu hylki. Þú hefur aldrei séð neitt annað en myndir á tveim sjónvarpsskjám fyrir framan nefið á þér og aldrei heyrt neitt annað en hljóð úr tveim hátölurum sem hanga hvor sínu megin við hausinn á þér. Það liggja þræðir úr kollinum á þér í einhvern stjórnbúnað í hylkinu og þú getur látið það hreyfast með því einu að hugsa hreyfingarnar. Á sjónvarpsskjánum sérðu meðal annars hluta af ytra byrði hylkisins og þegar armarnir á því eða aðrir hlutar þess snerta eitthvað þá finnur þú fyrir því. Tækjabúnaðurinn í hylkinu sér þér sem sagt fyrir eins konar sjón, heyrn og snertiskyni, auk möguleika á að ferðast um í heiminum.
     Þú mátt bæta við fleiri skilningarvitum og möguleikum á að hafa áhrif á umheiminn. Öll boð til þín verða þó að berast frá tækjabúnaði í hylkinu og þú getur aðeins haft áhrif á umheiminn fyrir milligöngu véla og tækja sem eru innan í því.
     Hvaða hugmyndir getur þú gert þér um heiminn utan hylkisins? Þú þekkir hann aðeins sem myndir á sjónvarpsskjám, hljóð úr hátölurum og merki frá einhverjum tækjum.

a)     Þú gætir giskað á að það sem þú sérð á skjánum sé með einhverjum hætti eftirmynd veruleikans utan við hylkið og sú reglufesta og það skipulag sem þú verður var við endurspegli náttúrulögmálin sem þessi ytri veruleiki fylgir.

b)     Þú gætir líka haldið að þessar myndir samsvari engum ytri veruleika heldur séu tilbúningur einhverra þér máttugri vera sem senda þær á skjáina og í önnur tæki hjá þér. Það skipulag sem þú verður var við skýrist þá af vilja eða ætlun þessara æðri máttarvalda. Með því að nota hugtak úr tölvufræðum má orða þetta svo að þú getir hugsað þér að sá veruleiki sem þú skynjar sé aðeins sýndarveruleiki.

c)     Þú gætir líka komist að þeirri niðurstöðu að til sé ytri veruleiki en ekkert sé hægt að vita um hann nema hvernig hann birtist á skjánum og í öðrum tækjum. Það sé hægt að komast að því hvaða reglum eða lögmálum skynheimuinn fylgir, en vonlaust sé að vita neitt um ástæður þessarar reglufestu. Þú getur þá öðlast þekkingu á eigin reynsluheimi en ekki á orsökum hans.

     Sjálfsagt getur þú gert þér fleiri hugmyndir en þessar þrjár. En við skulum ekki fást um það heldur velta því fyrir okkur hverju það breytti ef engir væru sjónvarpsskjáirnir og hátalararnir. Í þeirra stað væru þræðir úr veggjum hylkisins tengdir beint við sjón- og heyrnartaugar þínar þannig að þú yrðir fyrir sömu sjón- og heyrnaráreitum og meðan þú hafðir skjáina og hátalarana. Það er erfitt að ímynda sér að þetta breytti miklu.
     Við getum haldið áfram að breyta sögunni. Hvað ef þú ert bara heili, með taugar út í tækjabúnað hylkisins? Þú hefur hvort sem er engin not fyrir augu, eyru, hendur, fætur og búk þarna inni svo þetta getur ekki breytt neinu. Nú er bara eitt skref eftir. Hvað ef hylkið er ekki smíðað úr dauðu efni eins og þú hefur ímyndað þér til þessa heldur úr lifandi frumum? Hvað ef það er alveg eins og mannslíkami? Breytir það einhverju um sennileika hugmyndanna sem hér voru merktar með a, b og c?
     Þetta breytir að vísu því að sá sem aðhyllist b, eða c sér enga ástæðu til að ætla að heili sinn og hylkið utan um hann, það er líkaminn, sé raunveruleiki í þess orðs fyllstu merkingu. Hugmyndir okkar um heila og líkama eru fengnar úr skynjunum, sem þessar tilgátur gera ráð fyrir að séu ekki neitt líkar hinum ytri veruleika. Þeir sem hugsa svona eru vísir til að álíta sjálfa sig andlegs eðlis, veruleika af allt öðru tagi en sá heimur sem skynfærin birta mönnum.

*
Tilgáturnar þrjár sem merktar voru a, b, og c samsvara þekktum heimspekikenningum frá seinni öldum. Líklega aðhyllast flestir fyrstu kenninguna og það er erfitt að eigna hana neinum sérstökum höfundi. Þó má nefna að kenning í þessa veru var rökstudd af John Locke (1632 - 1704).
     Næsta kenning er yfirleitt kölluð "hughyggja" og helsti upphafsmaður hennar er Írinn George Berkeley (1685 - 1753). Berkeley var maður trúaður. Á tímum hans var guðfræðin að víkja fyrir eðlisfræðinni sem grundvöllur heimsmyndarinnar og drottning vísindanna. Þetta líkaði Berkeley ekki. Hann færði því rök fyrir hughyggju sem kennir að efnisveruleikinn eigi sér ekki sjálfstæða tilvist heldur sé hann ekkert nema skynjanir og hin raunverulega orsök skynjananna sé vilji guðs en ekki dauðir náttúrukraftar. Síðan á dögum Berkeleys hefur hughyggja í einhverri mynd jafnan átt verulegu fylgi að fagna meðal evrópskra heimspekinga, trúaðra jafnt sem trúlausra, þótt lengst af hafi tvíhyggja í anda Descartes (1591-1650) verið vinsælli. Nú á síðustu árum hefur efnishyggja færst upp eftir vinsældalistanum og skákað bæði tvíhyggju og hughyggju niður fyrir sig.
     Þriðja kenningin var sett fram og rökstudd af þýska heimspekingnum Immanuel Kant (1724 - 1804). Þessi kenning virðist hófsöm og yfirlætislaus. Er ekki rétt að viðurkenna að um það sem liggur handan allrar reynslu sé ekkert hægt að vita? Kannski er það rétt, en auðvelt er það ekki. Kant reyndi sjálfur að sýna fram á að þótt ekki sé hægt að vita neitt með vissu um veruleikann handan við reynsluna þá séu ástæður til að vona að hann rúmi góðan guð, eilíft líf og frjálsan vilja.