Formáli

Greinarnar sem hér eru saman komnar fjalla um evrópska heimspeki, sögu hennar, vandamál, kenningar eða úrlausnarefni. Þær eru samdar á tímabilinu frá útmánuðum 1993 til miðs árs 1995.
    Um helmingur greinanna hefur áður birst í Lesbók Morgunblaðsins.* Sumum þeirra hef ég breytt töluvert síðan. Níu þeirra greina sem birtust í Lesbókinni höfðu áður komið fyrir almenningssjónir í Rafritinu, rafrænu tímariti sem Sæmundur Bjarnason hóf að gefa út í júlí árið 1993 og dreifði um tölvunet, einkum Íslenska menntanetið.
    Greinarnar sem birtust í Lesbókinni kölluðust einu nafni Ógöngur en ég hef valið þessu kveri heitið Afarkostir vegna þess að heimspekin á það til að setja hugsun manna afarkosti.
    Við samningu og frágang greinanna hef ég fengið góð ráð og ábendingar frá Hörpu Hreinsdóttur eiginkonu minni og móðurmálskennara við Fjölbrautaskóla Vesturlands.  Auk hennar fór Ólafur Páll Jónsson heimspekingur yfir allt greinasafnið og benti mér á margt sem betur mátti fara.  Um efni sumra greinanna hef ég skrifast á við Kristján Kristjánsson heimspeking við Háskólann á Akureyri. Bréfaskipti okkar hafa hjálpað mér að skilja betur ýmis atriði sem ég tek til umfjöllunar. Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur hjálpaði mér að finna upplýsingarnar sem koma fram í neðanmálsgrein á blaðsíðu 19. Þessu fólki þakka ég veitta aðstoð.
Atli Harðarson
* Greinarnar sem birtust í Lesbók Morgunblaðsins eru: Þverstæður (r), Sönnun Anselms, Efahyggja (r), Aðleiðsla (r), Hughyggja (r), Altæk vél (r), Vélin maður (r), Frjáls vilji, Lífið er lotterí, Vísindi og siðferði (r), Er eitthvað bogið við veröldina? (r), Dæmisaga Poincarés (r).  Þær sem merktar eru með stafnum r höfðu áður birst í Rafritinu.